Þegar sá sem beitir ofbeldinu er nátengdur þolanda

Að fara yfir kynferðisleg mörk manneskju er ofbeldi

Getur verið að þú sért að beita ofbeldi?

Mansal er hagnýting á annarri manneskju

Ofbeldi í nánum samböndum

Ofbeldi er þegar einhver gerir eitthvað sem viljandi meiðir þig eða lætur þér oft líða illa. Það kallast ofbeldi í nánu sambandi eða heimilisofbeldi þegar sá sem beitir ofbeldinu er skyldur eða tengdur þér, til dæmis maki, fyrrverandi maki, fjölskyldumeðlimur eða umönnunaraðili. Ofbeldi getur átt sér stað óháð kyni, aldri, kynhneigð eða hverju öðru.

Andlegt ofbeldi

Andlegt ofbeldi er þegar einhver hótar þér, gerir lítið úr þér eða lætur þér líða illa. Það getur verið bæði með orðum og hegðun.

Hvað er andlegt ofbeldi?

Hótanir, niðurlæging, eftirlit og stjórnun með því að láta þér líða illa er allt andlegt ofbeldi. Ef einhver sem þú ert í tengslum við gerir þér þessa hluti er líklegt að það sé ofbeldi í nánu sambandi. Fólk sem beitir ofbeldi afsakar sig oft með því að kenna þolandanum um eða öðrum hlutum, eins og áfengi og fyrri sögu, í stað þess að taka ábyrgð á eigin hegðun.

Afleiðingar andlegs ofbeldis sitja oft lengur í fólki en eftir líkamlegt ofbeldi. Andlegt ofbeldi skilur ekki eftir sig áverka sem sjást þannig að það er oft erfitt að átta sig á ofbeldinu.

Ofbeldishringurinn

Ofbeldi í nánu sambandi fylgir oft mynstri sem er kallað ofbeldishringurinn.

  1. Spenna safnast upp.
  2. Á einhverjum tímapunkti losnar um spennuna í formi líkamlegrar eða andlegrar árásar.
  3. „Hveitibrauðsdagarnir” þar sem gerandinn er fullur eftirsjár.

Síðan heldur þessi vítahringur sífellt áfram.

Það gæti verið andlegt ofbeldi ef viðkomandi:

  • Tekur ekki tillit til hvernig þér líður.
  • Veldur þrúgandi andrúmslofti á heimilinu.
  • Öskrar á þig eða hótar þér eða öðrum á heimilinu.
  • Lýgur til að rugla þig í ríminu, einnig kallað gaslýsing.
  • Gagnrýnir oft þig, fjölskyldu þína eða vini.
  • Reynir að stjórna með fýlu eða þögn.
  • Skipar þér fyrir.
  • Reiðist snögglega og að ástæðulausu.
  • Kallar þig ljótum nöfnum.
  • Áreitir þig stanslaust með skilaboðum, símhringingum eða heimsóknum.
  • Heldur þér á einhvern hátt frá vinum og fjölskyldu.

     

    Fáðu hjálp

     

  • Það er alltaf betra að segja einhverjum frá hvernig þér líður. Ef þú vilt fá aðstoð getur þú haft samband við Bjarkarhlíð í Reykjavík eða Bjarmahlíð á Akureyri sem sérhæfa sig í stuðningi fyrir fullorðna við hvers konar ofbeldi. Engu máli skiptir hversu langt er síðan ofbeldið átti sér stað.

    Börn og fullorðnir geta alltaf talað við einhvern hjá 1717 (hjálparsíma Rauða krossins) eða haft samband við 112 gegnum síma eða netspjall.