Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis

Markmið Bjarmahlíðar er að veita stuðning, ráðgjöf og fræðslu um eðli og afleiðingar ofbeldis.

Bjarmahlíð þjónustar alla þolendur ofbeldis og er í samstarfi við barnavernd um þjónustu við ungmenni á aldrinum 16 til 18 ára og aðstandendur.

Bjarmahlíð
Bjarmahlíð

Ferlið í Bjarmahlíð

Bjarmahlíð er gjaldfrjáls, lágþröskulda þjónusta og ekki þarf tilvísun til að fá þjónustu. Unnið er út frá áfallamiðaðri nálgun þar sem einstaklingum er boðið upp á ráðgjöf, stuðning og upplýsingar. Einstaklingum er mætt á þeirra forsendum, í hlýlegu og öruggu umhverfi.

Einnig er boðið upp á fjarþjónustu í gegnum fjarfundarbúnað, síma og tölvupóstsamskipti. Ráðgjafi tekur í upphafi móttöku- og greiningarviðtal en venjan er að viðtölin séu 1-3 talsins.

Í Bjarmahlíð er lögð áhersla á þverfaglega samvinnu stofnana og samtaka með það að leiðarljósi að kortleggja stöðu og þarfir einstaklings í viðtölum og greiða leið hans í kerfinu þar sem hann fær áframhaldandi stuðning og ráðgjöf hjá viðeigandi aðilum.

Markmið Bjarmahlíðar er einnig að efla fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, ásamt því gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið.

Boðið er upp á persónuleg viðtöl þar sem einstaklingur fær stuðning, fræðslu og leiðsögn til að vinna í sínu máli, á eigin hraða og forsendum. Lagt er upp með að ráðgjöfin sé áfallamiðuð, styðjandi og valdeflandi. Ekki er um að ræða meðferð heldur fyrsta úrræði þar sem ráðgjafar greina og meta í samráði við þolanda hvaða þjónusta hentar og leiða viðkomandi í gegnum kerfið.

Í Bjarmahlíð er boðið upp á samhæfða þjónustu samstarfsaðila þar sem einstaklingar geta fengið ráðgjöf frá lögfræðingum, félagsráðgjöfum, barnavernd og lögreglu.