Ráðgjöf – Stuðningur – Fræðsla

Bjarmahlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og býður upp á ráðgjöf og upplýsingar fyrir einstaklinga frá 16 ára aldri sem hafa verið beittir ofbeldi. Hjá Bjarmahlíð er unnið með þolendum ofbeldis á þeirra forsendum. Öll þjónusta og ráðgjöf er undir sama þaki með það að markmiði að auðvelda þolendum að leita sér aðstoðar.

Bjarmahlíð leggur áherslu á þverfaglega samvinnu mismunandi stofnanna og samtaka sem koma að vinnu á staðnum. Brotaþola er mætt í hlýlegu og öruggu umhverfi, á þeirra forsendum og einstaklingum að kostnaðarlausu.

Einstaklingsviðtöl og ráðgjöf er i boði svo og tenging við aðra þjónustu sem er til staðar, þ.m.t velferðarþjónustu sveitafélaganna og heilsugæslu. Markmiðið Bjarmahlíðar er að efla fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, ásamt því gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið.

Fjarþjónusta
Við bjóðum þeim sem ekki komast í hús til okkar fjarviðtöl, símtöl og tölvupóstsamskipti.

Afleiðingar ofbeldis

Eins og þekkt er getur ofbeldi í hvaða mynd sem er haft alvarlegar afleiðingar bæði til skemmri og lengri tíma fyrir þá sem því sæta. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur tilgreint margvíslegar afleiðingar fyrir brotaþola ofbeldis. Það er vitað að heilsufarslegar afleiðingar þess að sæta ofbeldi geta verið miklar svo sem líkamlegir verkir, aukin tíðni veikinda, þunglyndi, áfallastreituröskun, svefnerfiðleikar, andlegir sjúkdómar, aukin tíðni sjálfsvígstilrauna og sjálfsvíga auk áfengis- og fíkniefnamisnotkunar.

Sýnt hefur verið fram á að börn sem búa við ofbeldi eða verða vitni af ofbeldi geta orðið fyrir jafn skaðlegum áhrifum þó þau verði ekki sjálf fyrir ofbeldinu. Ennfremur eru hópar í samfélaginu sem eru frekar í áhættu á að verða fyrir ofbeldi eins og aldraðir, fatlaðir og fólk af erlendum uppruna sem þekkir ekki rétt sinn og leiðir til að óska eftir aðstoð í samfélaginu.

Bjarmahlíð er staðsett í Aðalstræti 14

Ferlið

 • Teymisstjóri Bjarmahlíðar tekur fyrsta viðtal við þjónustuþega
 • Mikilvægt er að einstaklingur upplifi sig við stjórn og upplifi sig örugga/n eða öruggt
 • Teymisstjóri útskýrir eðli starfseminnar og kynnir möguleg úrræði. Flestir sem koma í fyrsta viðtal til teymisstjóra nýta sér úrræðin sem eru til staðar
 • Reglulega nýta þjónustuþegar sér fleiri en eitt úrræði Bjarmahlíðar

Áfallamiðuð nálgun

 • Mikilvægt er að þjónustuþegar upplifi öryggi, samkennd og virðingu
 • Þolendum er mætt með valdaeflandi nálgun
 • Þolendum er mætt á þeirra forsendum
 • Þolendum er mætt með skilningi á eðli áfallatengdu ofbeldi og endurtekinna áfalla
 • Fræðsla og upplýsingar um áföll, einkenni og afleiðingar

Samstarfsaðilar segja frá

  Hafðu samband

  Hægt er að óska eftir frekari upplýsingum með því að senda tölvupóst, bjarmahlid@bjarmahlid.is eða hringja í síma 551-2520.