Bjarmahlíð

Bjarmahlíð er þjónustumiðstöð fyrir fullorðna þolendur ofbeldis og ungmenni á aldrinum 16 til 18 ára, í samvinnu við barnavernd.

Bjarmahlíð er eina þolendamiðstöðin utan suðvesturhorns og sú eina sem þjónustar einstaklinga niður í 16 ára.
Einstaklingum gefst kostur á viðtölum hjá ráðgjöfum Bjarmahlíðar, félagsráðgjöfum, lögfræðingum, lögreglu og barnaverndarfulltrúum þeim að kostnaðarlausu og á þeirra forsendum. Viðtölin geta öll farið fram í húsnæði Bjarmahlíðar, Aðalstræti 14.

Bjarmahlíð er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, félags- og húsnæðismálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytisins, Lögreglunnar á Norðurlandi Eystra, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, Sjúkrahússins á Akureyri, Aflsins, Samtaka um kvennaathvarf, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar.

Bjarmahlíð tók formlega til starfa 10. maí 2019 og starfar eftir hugmyndafræðinni Family Justice Center.

Bjarmahlíð, Akureyri
Family Justice Center

Hugmyndafræði

Family Justice Center hugmyndafræðin var þróuð til að bæta stuðning við þolendur ofbeldis með því að sameina ólíka þjónustu undir eitt þak og draga úr hindrunum sem fólk mætir þegar það leitar sér hjálpar. Megininntak hugmyndafræðinnar er það að þolendur eigi ekki að þurfa að ganga á milli stofnana til að fá aðstoð heldur eigi þjónustan að koma til þeirra og vera þeim að kostnaðarlausu.

Líkanið byrjaði að þróast í Bandaríkjunum árið 1989 en fyrsta miðstöðin opnaði í San Diego árið 2002. Síðan þá hafa slíkar miðstöðvar verið settar á laggirnar í mörgum fylkjum Bandaríkjanna. Ísland er áttunda landið í Evrópu til að þróa hugmyndafræðina en í dag eru 19 miðstöðvar í Evrópu, EFJC Europian Family Justice Center. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar hér og hér.

Bjarmahlíð er ein fjögurra þolendamiðstöðva á Íslandi sem vinna út frá FJC hugmyndafræðinni. Hinar eru Bjarkarhlíð í Reykjavík, Suðurhlíð í Reykjanesbæ og Sigurhæðir á Selfossi en þjónustan þar miðast einungis við konur.

Húsnæðið

Öll þjónusta og ráðgjöf er undir sama þaki með það að markmiði að auðvelda þolendum að leita sér aðstoðar.