Ráðgjafar okkar sækja árlega ráðstefnu á vegum European Family Justice Center Alliance (EFJCA). Bjarmahlíð byggir starfsemi sína á Family Justice Center hugmyndafræðinni, en sú hugmyndafræði liggur að baki öllum þolenda miðstöðvum í heiminum.
Ráðstefnur EFJCA eru alþjóðlegir viðburðir þar sem sérfræðingar og fagfólk frá ýmsum löndum hittast til að deila reynslu, þekkingu og gagnreyndum aðferðum sem tengjast fjölbreyttum þáttum í málefnum ofbeldis. Á ráðstefnunum eru meðal annars:
- Fyrirlestur og fræðsluerindi frá sérfræðingum um fjölþætt málefni er varða kynbundið og heimilisofbeldi, barnamisnotkun og kynferðisofbeldi.
- Unnin vinnustofur og pallborðsumræður þar sem hægt er að kafa dýpra í þverfaglegar aðferðir, verklag og nýjungar í vinnu með þolendum og fjölskyldum þeirra.
- Dagskrár sem leggur áherslu á þróun og innleiðingu hugmynda um fjölþætt samstarf og stefnumótun sem getur styrkt þjónustu einstaklinga og stofnana.
- Tækifæri til alþjóðlegs samstarfs og tengslamyndunar, þar sem þátttakendur byggja tengsl við aðra sem vinna við svipuð verkefni í mismunandi löndum.
Ráðstefnur eru mikilvægur þáttur í starfi ráðgjafa í Bjarmahlíð. Þær styðja við faglega þróun og tryggja að ráðgjafar séu ávallt vel upplýstir um málefni og þarfir þolenda ofbeldis.
Eftir ráðstefnuna óskaði ráðstefnuhaldarinn, Nicholas M. Spetsidis, eftir fundi með teymisstýrum þolenda miðstöðvanna á Íslandi. Í framhaldinu var ákveðið að hittast á reglulegum fjarfundum og vinna saman. Nicholas var að vinna að því að koma á fót þolendamiðstöð á Krít, sem ætlað var bæði konum í ofbeldissamböndum og heimilislausum konum.
Áður hafði Nicholas komið á fót úrræði á Krít sem líktist Konukoti og var ætlað heimilislausum konum með vímuefnavanda. Úrræðið var útfært í samstarfi við íslensk yfirvöld og byggði á fyrirmynd Rótarinnar hér á landi. Nicholas hugðist því halda sig við íslenska fyrirmynd áfram og kanna hvort hann gæti nýtt sér liðsauka Bjarmahlíðar, Bjarkarhlíðar, Suðurhlíðar og Sigurhæða í þeirri vinnu.
Ísland sendi frá sér fulltrúa á vegum allra fjögurra þolendamiðstöðva landsins, auk fulltrúa lögreglunnar. Birna Guðrún Árnadóttir teymisstýra mætti fyrir hönd Bjarmahlíðar. Jenný Kristín Valberg fyrir hönd Bjarkarhlíðar, Elísabet Lorange og Anna Björg frá Sigurhæðum og Inga Dóra Jónsdóttir frá Suðurhlíð. Frá lögreglunni voru svo Þóra Jónasdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn og Guðmundur Ásgeirsson lögreglufulltrúi hjá ríkislögreglustjóra.






